Hvernig varð ég kattarvinur?
Í æsku var mér kennt að líta gæludýr hornauga. Nánasta fjölskylda stríddi mér ósjaldan á því að ég hefði árið 1979, þá tveggja ára, sett heimsmet í 100 m hlaupi tveggja ára barna þegar ég hræddist svo mikið hund að ég hljóp sem eldingin undan hvutta. Þetta ku hafa gerst í minni fyrstu Spánarferð.
Svo vildi einnig til að annar bróðir minn, sem ég leit mjög upp til og þjálfaði mig í skák, var mjög á móti hundahaldi í Reykjavík sem og öflugur æskulýðsfrömuður í skákhreyfingunni. Röksemdafærslur þessara tveggja manna voru svo sannfærandi að ég varð fljótt kominn á vagninn sem andstæðingur hundahalds í Reykjavík. Í minningunni var þetta nokkrum árum eftir frægt atvik þar sem ljósmyndari kærði þáverandi fjármálaráðherra Albert Guðmundsson fyrir að eiga hund í Reykjavík:
Lucy, tík Alberts, fékk að vera áfram á heimili hans enda var um þetta leyti reglum breytt sem leyfði hundahald að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Albert greidd sína sekt og sleppti því að flýja land með Lucy eins og hann hótaði ef honum yrði gert skylt að losa sig við hundinn af heimili sínu í Reykjavík!
Á þessum árum kom hundur þáverandi borgarstjóra, Davíðs Oddssonar, reglulega í fréttirnar en sá var af scheffer-kyni og bar nafnið Tanni. Síðar, þegar Davíð varð forsætisráðherra, bar hann því stundum við að hann leitaði ósjaldan ráða hjá Tanna og hafi samtöl hans við hundinn oft hjálpað honum í að taka erfiðar ákvarðanir!
Fyrir utan áunna hundahræðslu var mér ekki svo vel við ketti, meðal annars vegna þess að frænka mín átti síamskött og mér fannst hann alltaf svoldið afundinn þegar ég kom í heimsókn. Satt best að segja var ég eilítið smeykur við köttinn.
Svo breytast tímarnir og mennirnir með
Vorið 2004 hófum við Ólöf Vala sambúð, henni fylgdi meðal annars kötturinn Emma. Hún var góður vinur allra á heimilinu. Það var erfitt að missa hana í janúar 2023.

Hálfu ári fyrir andlát Emmu hafði annar köttur komið á heimilið en Júní var fædd fyrri hluta árs 2022 en lést eftir að hafa orðið fyrir bíl í september 2023.

Uppáhaldið, Drúi
Þrátt fyrir sorgina sem fylgdi missinum af Júní þá afréðum við að fá nýjan kött, í þetta skipti högna. Fljótlega kom á daginn að ég náði einstaklega góðu sambandi við nýjasta fjölskyldumeðliminn og knúði ég það í gegn að hann fengi nafnið Drúi. Þetta óvenjulega nafn stafar af því að móðurafi minn, Andrew, var oft kallaður Drúi. Við Andrew tefldum oft og spiluðum saman. Hann var skemmtilegur maður og barngóður.

Pepsí Max kemur til skjalanna
Það var erfið ákvörðun að gelda Drúa en það var talið nauðsynlegt svo að hann héldi sig í hverfinu. Mér fannst bera á einmanaleika hjá Drúa og vildi tryggja að hann hefði ávallt félagsskap. Við eiginkonan fundum svo tveggja mánaða kettling í apríl og sá hefur heldur betur verið uppvöðslusamur. Atkvæði voru greidd um nafnið og varð Pepsí Max niðurstaðan.

Pepsí Max hefur síðustu daga verið ansi uppvöðslusamur í hverfinu, enda óhræddur og hugrakkur með endemum. Á fésbókarsíðunni íbúar í Norðurmýri hefur hann fengið allmikið pláss, kettlingurinn sá arna!

Samband Drúa og Pepsí Max
Ég myndi segja að samband Drúa og Pepsí Max sé flókið, stundum eru þeir bestu vinir, stundum hvæsir Drúi illilega á Pepsí enda vill sá yngri leika meira en sá eldri. Úti í garði eru þeir jafnan miklir vinir.

Svo eru þeir oft ansi fallegir þegar þeir sofa nálægt hvorum öðrum.

Að vera dýravinur er gagnlegt í stjórnmálum
Ég hef eytt tiltölulega skömmum tíma í stjórnmálum. Eftir þá reynslu hef ég hins vegar meiri skilning á eftirfarandi ummælum Friðriks mikla Prússakeisara (keisari frá 1740-1786):
„Því betur sem ég kynnist mönnunum, því betur kann ég við hundinn minn.“
Kettirnir mínir veita mér mikla gleði og er stoltur af því að vera orðinn kattarvinur. Hundar eru líka fínir!
Hef því mun meiri skilning á hvers vegna bæði Alberti Guðmundssyni og Davíð Oddssyni hafi fundist á sínum tíma mikilvægt að hafa gæludýr nálægt sér!