Innblástur frá Garry Kasparov
Á youtube-rásinni Levitov Chess World er að finna um 30 viðtöl við Garry Kasparov, þrettánda heimsmeistarann í skák, samtals er efnið vel yfir 24 klst.:
Margir telja að Kasparov sé besti skákmaður sögunnar en hann varð heimsmeistari árið 1985, þá 22 ára. Hann bar nafnbótina heimsmeistari í skák allt til ársins 2000 þegar hann tapaði einvígi fyrir Vladimir Kramnik.
Árið 1993 sleit hann sig frá FIDE, alþjóðaskáksambandinu, og varði sinn eigin heimsmeistaratitil tvívegis, fyrst gegn Nigel Short árið 1993 og svo gegn Vishy Anand árið 1995. Allan þennan tíma var hann stigahæsti skákmaður heims, venjulega mun stigahærri en sá sem var nr. 2 á listanum.
Hann var áfram stigahæsti skákmaður heims eftir ósigurinn gegn Kramnik árið 2000 og svo var einnig þegar hann hætti sem atvinnumaður í skák í mars 2005, þá á 42. aldursári og endaði ferilinn með stigatöluna 2811.
Nánar um viðtöl Levitovs við Kasparov
Viðtöl Levitovs við Kasparov eru tekin á nokkrum árum, líklegast á árabilinu 2021-2024. Mikið af efninu byggir á bókum sem Kasparov hefur gefið út, væntanlega helst á þessum þrem ritum:
- Kasparov, Garry (2011). Garry Kasparov on Garry Kasparov, Part 1: 1973-1985. Everyman Chess. p. 520. ISBN 978-1-85744-672-2.
-
- Kasparov, Garry (2013). Garry Kasparov on Garry Kasparov, Part II: 1985-1993. Everyman Chess. p. 495. ISBN 978-1-78194-024-2.
-
- Kasparov, Garry (2015). Garry Kasparov on Garry Kasparov, Part III: 1993-2005. Everyman Chess. p. 500. ISBN 978-1-78194-183-6.
Viðtölin eru á rússnesku og finnst mér það kostur, viðtölin flæða betur en ef hann hefði talað á ensku.
Ég hef horft á nánast allt efnið í þessari viðtalsseríu og mæli ég með henni, Kasparov er mannlegri í viðtölunum en þegar hann var upp á sitt besta í skákinni, viðurkennir mistök og fer yfir skákir sínar á opinskáan hátt.
Þá komum við að kjarna málsins, skákir Kasparovs eru ótrúlegar, allt frá unga aldri, hugmyndaflugið mikið og sókndirfskan alltumlykjandi. Það er frábært að sjá hann fara yfir skákir sínar og finna hversu mikla ástríðu hann hefur fyrir greininni. Sögur tengdar ferlinum eru ófáar og eru þær skemmtilegar. Ekki þó eins skemmtilegar og áhugaverðar og skákirnar sjálfar.
Innblástur er orðið sem lýsir áhrifum þess að horfa á Kasparov fara yfir skákir sínar og feril.
Tvær skákir Kasparovs þegar hann var 14 ára
Garry Kasparov lenti í þriðja sæti á heimsmeistaramóti sveina, 17 ára og yngri, sem haldið var í Frakklandi í september 1977. Hvílík skömm fyrir sovéskan keppanda!
Við Íslendingar sýtum það ekki þar eð Jón L. Árnason varð heimsmeistari á mótinu og fyrsti Íslendingurinn til að verða heimsmeistari.
En í viðtölunum lýsir Kasparov vonbrigðum sínum með árangurinn, jafnvel þótt hann hafi verið mun yngri en helstu keppinautar sínir, hann varð 14 ára 13. apríl 1977.
Í viðtölunum við Levitov segir Kasparov að þetta hafi verið eina skiptið á sínum ferli sem hann hafi haft efasemdir um að hann gæti gert skákina að lifibrauði og viðbrögðin við því voru að leggja sig enn harðar fram í rannsóknum og æfingum. Skömmu síðar tefldi hann fallega skák gegn æskufélaga sínum, og síðar aðstoðarmanni, Elmar Magerramov, eftir 17. leik hvíts var staðan eftirfarandi:

Hér varð framhaldið eftirfarandi:
17...d4! 18.exd4 He8 19. f3

19...Bxf3! 20. gxf3 Dh4+ 21. Hf2 Rxd4+ 22. Be2 Rxf3+ 23. Kf1 Dh3+ 24. Hg2 Rh4 25. Hhg1 Had8 26. De1 Hd3! 27. Df2 Rf3 28. Hh1
hvítur hefði orðið mát eftir 28. Bxd3 Rxh2#!

28...Hde3 29. Hhg1 Kh8 30. Hh1 b5 31. a3 a5 og hvítur gafst upp enda í leikþröng.

Í sama viðtali, nr. 4 í þáttaröðinni, er einnig farið yfir skák Kasparovs gegn stórmeistaranum Lev Alburt en skákin var tefld í undanrásum sovéska meistaramótsins árið 1978:

Kasparov stýrði svörtu mönnunum hér og bar sigur úr býtum eftir:
36. Rc2 Dxb3 37. Dxd4 Db1+ 38. Dg1 Dxc2 39. Dxa7 Dd1+ 40. Dg1

Hér var Kasparov spurður að því hvort það væri ekki flott hjá 14 ára strák að vita að þetta peðsendatafl væri unnið á svart eftir 40...Dxg1 41. Kxg1, t.d. í samanburði við ýmis mistök sem ung stórstirni séu að gera sig seka um í endatöflum af þessu tagi. Kasparov svaraði þessu með eftirfarandi hætti:

Lok skákarinnar urðu eftirfarandi:
41...Kg7 42. Kf2 Kf6 43. Ke3 Ke5 44. Kf3 f5 45. Ke3 g5 46. h3 Kd5 47. Kd3 Kc5 48. Kc3 g4 49. Kd3 gxh3 50. gxh3 Kd5 51. Ke3 Ke5 52. Kf3 f4 53. Kf2 Ke4 54. Ke2 f3+ 55. Kf1 Kf5 56. Kg1 Ke5 og hvítur gafst upp.

Lokastaðan er töpuð, t.d. eftir 57. Kf1 Ke4 58. Kg1 Ke3 59. Kf1 f2.
Kasparov, Carlsen og Gukesh - Zagreb í byrjun júlí 2025
St. Louis skákklúbburinn hélt at- og hraðskákmót sem lauk sunnudaginn 6. júlí í höfuðborg Króatíu, Zagreb. Indverski heimsmeistarinn Gukesh vann atskákhlutann en Magnus Carlsen hraðskákhlutann. Samanlagt vann Carlsen mótið.
Kasparov var fenginn í viðtal á meðan atskák Gukesh og Carlsen stóð. Mat hans á stöðunni var áhugavert þar eð hann taldi að Carlsen, með hvítu, væri með strategískt unnið tafl en að b2-b4 leikurinn væri of áhættusamur.

Tölvurnar voru ekki sammála Kasparov en frá mannlegu sjónarhorni hafði hann rétt fyrir, ekki síst í ljósi þess að um atskák var að ræða. Gukesh vann skákina.
Carlsen sýndi hins vegar hver væri bestur í hraðskákinni og vann mótið að lokum örugglega.
Innsýn Kasparovs í skák er enn áhugaverð og veitir skákáhugamönnum innblástur.