Verðskulduð viðurkenning til Vinaskákfélagsins

Vin dagsetur hefur verið starfrækt á Hverfisgötu í Reykjavík síðan árið 1993. Helsta markmið starfseminnar hefur frá upphafi að veita fólki með geðraskanir tækifæri til að auka virkni sína, í ljósi áhugamála hvers og eins. Með því að skapa vinalegt og áhugavert umhverfi fyrir gesti setursins aukast líkur á að dregið sé úr félagslegri einangrun þessa viðkvæma hóps.

Rauði Krossinn á Íslandi rak setrið lengst af en árið 2021 tók Reykjavíkurborg við rekstrinum. Í upphafi þessa kjörtímabils voru fyrirætlanir um að leggja starfsemina niður á Hverfisgötu og færa hana annað, sjá t.d.:

https://www.ruv.is/frettir/erlent/2023-01-11-bakka-med-lokun-vinjar-ad-minnsta-kosti-i-ar

https://www.visir.is/g/20232398015d/um-vanhugsada-lokun-borgarinnar-a-vin-hverfisgotu

https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-03-01-ef-thad-lokar-herna-tha-hrynur-min-tilvera-406175

Húsnæði Vinjar að Hverfisgötu

Tillögum um þetta efni hefur ekki verið hrint í framkvæmd og útlit er fyrir að starfsemin verði að óbreyttu á Hverfisgötu.

Vinaskákfélagið

Fyrir 22 árum var Vinaskákfélagið stofnað. Hrafn Jökulsson og félagar í Hróknum áttu stóran þátt í stofnun félagsins.

Á 20 ára afmæli Vinaskákfélagsins tefldi ég fjöltefli í Vin og Arnar Valgeirsson var heiðraður fyrir sín störf fyrir félagið og rak hann sögu félagsins frá sínu sjónarhorni með færslu á fésbókinni.

Undanfarin ár hafa Hörður Jónsson og Róbert Lagerman átt stóran þátt í vel heppnaðri starfsemi Vinaskákfélagsins.

Hörður Jónsson, forseti Vinaskákfélagsins og Róbert Lagerman, oft kallaður Doninn á meðal íslenskra skákmanna.

Upplýsingar um líflegt starf Vinaskákfélagsins undanfarin tvö ár má finna hér:

https://www.vinaskak.is/um-felagid/uppgjor-2024/

https://www.vinaskak.is/uppgjor-og-skyrsla-stjornar-2025/

Sem dæmi um framtak Vinaskákfélagsins má nefna starfrækslu Minningarsjóðs Hrafns Jökulssonar en fyrsta minningarmót hans var haldið haustið 2023. Einnig hefur félagið haldið Sumarskákmót og sem dæmi lenti ég í öðru sæti á því móti árið 2020 á eftir félaga mínum, Guðmundi Kjartanssyni:

https://www.vinaskak.is/gudmundur-kjartansson-2317-vann-helga-ass-gretarsson-2482-eftir-bradabana/

Doninn á milli tveggja stórmeistara

Viðurkenning FIDE til Vinaskákfélagsins 2025

Í gær, 7. júlí 2025, var ég viðstaddur við upphaf Sumarskákmóts Vinaskákfélagsins að húsnæði Vinjar á Hverfisgötu.

Ræðuhöld að fara að hefjast, 7. júlí 2025, Vin að Hverfisgötu

Að lokinni stuttri kynningu Harðar Jónsson, forseta Vinaskákfélagsins, tók Harald Björnsson, varaforseti Skáksambands Íslands orðið:

„Góðir gestir

Í ár heldur alþjóðaskáksambandið, FIDE, upp á ár samfélagsskákarinnar. Markmið átaksins er að efla skák á fjölbreyttum sviðum samfélagsins og gera skák að afli til jákvæðra breytinga.

Einn angi átaksins var að FIDE óskaði eftir tilnefningum frá skáksamböndum um einstaklinga eða samtök sem hefðu sýnt einstakt og varanlegt framlag til samfélagslegra málefna, með skák sem verkfæri. Það segir sitt um Vinaskákfélagið sem er að halda þetta mót í dag að þegar þetta erindi FIDE kom inn á borð stjórnar skáksambandsins var það fljótafgreitt og einróma samþykkt. Vinaskákfélagið hefur með ómetanlegu starfi eflt skáklíf fólks með geðraskanir. Með hlýju, virðingu og eldmóði hefur félagið skapað vettvang þar sem skákin verður brú milli einstaklinga, stofnana, og samfélagsins alls. Vinaskákfélagið hefur sýnt hvernig skák getur verið afl til góðs. Við fögnum þessu mikilvæga starfi og vonum að það verði öðrum innblástur.

Það er mér heiður að afhenda formanni Vinaskákfélagsins viðurkenninguna FIDE Outstanding Contribution to Social chess

Til hamingju Vinaskákfélag og takk fyrir ykkar mikilvæg framlag til skáklífsins á Íslandi.“

Sannarlega skemmtileg og verðskulduð viðurkenning:

Hörður Jónsson, forseti Vinaskákfélagsins og Harald Björnsson, varaforseti Skáksambands Íslands

Að þessu loknu fór Sumaskákmót Vinaskákfélagsins fram og eins og við mátti búast varð Íslandsmeistarinn í skák, stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson, öruggur sigurvegari, sjá

https://www.vinaskak.is/vignir-vatnar-vann-sumarmot-vinaskakfelagsins-2025/

Sumarskákmót Vinaskákfélagsins sett með fyrsta leik, 1. a3!