Þéttingaráformin við Rangárselið
Umræða um þéttingu byggðar í Breiðholti hefur verið lífleg síðustu daga en að mínu frumkvæði var meðal annars fjallað um þetta málefni á fundi borgarstjórnar 8. apríl síðastliðinn.
Einn angi þeirrar umræðu varðaði þéttingu byggðar í Rangárseli, nálægt Seljatjörn. Þar nálægt er líka hjúkrunarheimilið Seljahlíð en amma mín, Guðfríður Lilja Benediktsdóttir, sem kenndi mér að tefla, bjó síðustu æviár sín að Seljahlíð.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem gildir til 2040, hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu á þessu svæði. Í hverfaskipulagi Breiðholts voru meðal annars svofelld ummæli felld um uppbyggingaráform borgarinnar:
„Stefnt er að blandaðri byggð. Íbúðum geti fjölgað um allt að 100.“ Þessi tala kemur líka fram í kortasjá borgarinnar um uppbyggingaráform:
Hinn 1. apríl 2025 var til umræðu í borgarstjórn mál sem varðaði „byggðaþróun í Reykjavík til framtíðar“ en þetta mál meirihlutans í borgarstjórn hafði að geyma ýmis fylgiskjöl, þar með talið húsnæðisáætlun borgarinnar á lokaársfjórðungi árið 2024. Hin svokallaða „Athafnaborg“ tók þessa húsnæðisáætlun saman en um er að ræða deild á skrifstofu borgarstjóra.
Samkvæmt húsnæðisáætluninni, lokablaðsíðu hennar, var fullyrt að 3904 íbúðir væru í „vinnslu hjá deild deiliskipulagsáætlana“ og þar af var áætlað að fjöldi íbúða á Rangárselsreitnum yrði 75, sjá
https://reykjavik.is/sites/default/files/2025-03/1_viljayfirlysing_husnaedisaaetlun_mss25030110.pdf
Hvað gerðist eftir fund borgarstjórnar?
Morguninn eftir áðurnefndan fund borgarstjórnar 8. apríl 2025, þar sem meðal annars var fjallað um þéttingu byggðar í Breiðholti, birti Morgunblaðið frétt þar sem haft var eftir upplýsingafulltrúa umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar að borgin hefði engin áform að byggja upp við Rangársel:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/09/borgin_bakkar_i_breidholti/
Á visir.is var fjallað einnig um málið:
https://www.visir.is/g/20252712415d
Síðar breyttist afstaða borgarinnar, sjá viðtal við formann umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur:
https://www.visir.is/g/20252713437d/umfangsmikil-uppbygging-vid-andapollinn-se-storlega-ykt-
Um þessa nýja nálgun var rætt nánar í Morgunblaðinu, laugardaginn 12. apríl:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/12/borgin_utskyrir_hvad_aformud_uppbygging_er/
Til svara grípur skipulagsfulltrúi borgarinnar og segir:
„Við erum ekki búin að tímasetja neina áætlun og erum að skoða önnur svæði í Breiðholtinu á undan þess og ég nefni Suðurhólana sem dæmi og svo Suðurfellið þar á eftir“.
Sem sagt, svar borgarinnar, sem forsíðufrétt Morgunblaðsins miðvikudaginn 9. apríl 2025 var reist á, var ekki alveg nákvæmlega orðað, það er hugsanlegt að byggt verði á reitnum við Rangársel þótt engin vinna hingað til hefur verið lögð fram við að þróa reitinn.
Hver er kjarni málsins?
Í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar er oft freistandi að horfa á aukaatriði fremur en aðalatriði. Hvað varðar Rangárselið er kjarni málsins fremur einfaldur. Það er hótun í stöðunni:
Planið er að byggja þar 75-100 íbúðir og þannig auka byggingarmagn í Breiðholtinu.