Opni leikskóli Memmm Play
Miðvikudaginn 19. mars síðastliðinn var ég á ferðinni í Efra-Breiðholti og á milli funda þar rambaði ég inn á menningarmiðstöðina Gerðuberg. Þegar komið var inn á bókasafnið var starfsemi opna leikskólans hér um bil að hefjast en Memmm Play, félagasamtök, sinna þeirri starfsemi:
.jpg)
Rétt áður en söngstundin hófst ræddi ég stuttlega við einn forsprakka Memmm Play, Kristínu Stefánsdóttur:
.jpg)
Kristín fræddi mig um starfsemina og var spjallið áhugavert en svo hófst söngstundin. Hvílík upplifun það var!
Fólk hvaðeina af heiminum var með börnunum sínum, sem öll voru á mismunandi aldri en þó á leikskólaaldri, og sungið var með miklum krafti og gleði að leiðarljósi. Þetta minnti mig á samverustund fjölskyldu, svo sem eins og þegar við konan löbbuðum hring um jólatréið með börnunum okkar sex þegar þau voru lítil og spennt yfir jólunum.
Sem sagt, ég var djúpt snortinn af þessari stund og á fundi velferðarráðs, síðar þennan sama dag, spurðist ég fyrir um aðkomu borgarinnar að starfsemi Opna leikskólans og hvers vegna fjárveitingar til hans væri á borði velferðarssviðs - rökréttara þótti mér að þetta verkefni væri á könnu skóla- og frístundasviðs.
Boltinn byrjaður að rúlla
Áhugi minn á málefninu hafði kviknað og lagði ég fram svohljóðandi tillögu fyrir fund skóla- og frístundaráðs:
„Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að skoða kosti þess og galla að það svið taki yfir allt samstarf við MemmPlay, sem starfrækir opna leikskólann, í stað þess að samstarfið velti á ákvörðunum velferðarráðs/velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.“
Þessari tillögu var frestað á fundi skóla- og frístundaráðs mánudaginn 24. mars 2025.
Málefnið vakti eigi að síður athygli þar eð umræður spunnust um það á fundi skóla- og frístundaráðs og miðvikudaginn 30. apríl síðastliðinn mættu tveir Memmmarar, áðurnefnd Kristín Stefánsdóttir og Helga Hreiðarsdóttir, á fund velferðarráðs Reykjavíkurborgar og kynntu starfsemi félagasamtakanna. Í kjölfar þeirrar kynningar bókuðu bæði fulltrúar meirihluta og minnihluta um málið, í bókun velferðarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sagði:
„Fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins styðja að Reykjavíkurborg leiti leiða til að eiga aukið samstarf við Memmm Play. Memmm Play hefur unnið frábærlega faglegt starf sem kemur foreldrum og börnum vel. Í því starfi sameinast gott foreldrasamstarf og samstarfsvettvangur í hverfum þar sem fólk getur kynnst og styrkt böndin. Memmm Play starfa að sænskri fyrirmynd sem hefur reynst vel bæði hérlendis og erlendis. Memmm Play hefur lýst áhuga á að auka þjónustu í hverfum borgarinnar.“
Sjá fundargerð velferðarráðs hér:
https://reykjavik.is/fundargerdir/velferdarrad-fundur-nr-503
Sambærilega kynningu héldu stöllurnar tvær fyrir skóla- og frístundaráðs á fundi þess 26. maí 2025:
https://reykjavik.is/fundargerdir/skola-og-fristundarad-fundur-nr-293
Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks héldu sig við bókunina í velferðarráði frá 30. apríl en meirihlutinn skrifaði líka fallega um verkefnið í sinni bókun.
Undur og stórmerki gerast!
Ég hef setið í skóla- og frístundaráði frá upphafi kjörtímabilsins í júní 2022 og á þeim tíma hef ég haft frumkvæði að framlagningu fjölmargra tillagna. Þeim hefur öllum verið hafnað, svo ég muni eftir! En viti menn, á fundi skóla- og frístundaráðs 23. júní síðastliðinn var áðurnefnd tillaga um Memmm Play samþykkt, samhljóða. Af því tilefni lögðu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, svohljóðandi bókun:
„Það er afar ánægjulegt að skóla- og frístundaráð hafi samþykkt þessa tillögu en minnt er á að MemmmPlay starfar að sænskri fyrirmynd sem hefur reynst vel bæði hérlendis og erlendis. Í Memmmplay skapast vettvangur til að kynnast í nærumhverfinu, svo sem fyrir alla þá sem koma nýir í hverfi borgarinnar. Þannig má koma í veg fyrir að börn einangrist heima. Í starfinu sameinast sem sagt gott foreldrasamstarf og samstarfsvettvangur í hverfum þar sem fólk getur kynnst og styrkt böndin.“
Á fundi skóla- og frístundaráðs 23. júní síðastliðinn varð ég eiginlega kjaftstopp að meirihlutinn samþykkti tillöguna og sagði að geðshræringin væri slík að ég væri gráti næst! Þetta upplýsti ég líka í lok viðtals við Bítið mánudaginn 30. júní:
Í framhaldi af þessari upplýsingagjöf fengu þáttastjórnendur Bítisins umsjónaraðila Memmm Play, þær stöllur, Kristínu og Helgu, í viðtal í þættinum í morgun, þriðjudaginn 1. júlí:
Sjá:
Þverpólitísk sátt um framgang opna leikskólans
Mér sýnist að það sé þverpólitísk sátt um að skynsamlegt sé að efla starf opna leikskólans og að hjá Memmm Play starfi öflugt fagfólk sem hafi með störfum sínum aflað sér trausts og virðingar. Það er gaman að geta lagt eitthvað jákvætt lóð á vogarskálina í þessum efnum.