Annasöm vika

Það er misjafnt hversu mikið annríki fylgir því að vera í borgarpólítíkinni. Lokavikan í ágúst 2025 var hins vegar ansi viðburðarík. Mánudaginn 25. ágúst birtist í miðopnu Morgunblaðsins grein eftir mig sem bar heitið „Tökum til í rekstri Reykjavíkurborgar“. Henni var meðal annars dreift á samfélagsmiðlum:

Hinn eitilharði Júlíus Valsson er duglegur að dreifa pólitísku efni á fésbókinni!

Fundur skóla- og frístundaráðs mánudaginn 25. ágúst

Mikið var um fundahöld síðastliðinn mánudag, meðal annars sat ég, ásamt Mörtu Guðjónsdóttur, langan fund skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Miðillinn dv.is fjallaði um fyrsta dagskrárlið fundarins:

https://www.dv.is/frettir/2025/8/26/segjast-aetla-ad-taka-vidvaranir-ungmenna-alvarlega/

Erfiðasta málið á dagskrá fundar skóla- og frístundaráðs varðaði meint kynferðisbrot starfsmanns leikskólans Múlaborgar á nemanda skólans, en starfsmaðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan miðvikudaginn 13. ágúst.

Við Marta töldum nauðsynlegt að skýra okkar nálgun á málinu með grein á visir.is en segja má að frammistaða borgarstjóra í Kastljósi þriðjudaginn 19. ágúst hafi ekki verið til þess fallin að efla traust almennings á viðbrögðum borgarinnar, sjá til dæmis:

https://www.visir.is/g/20252764336d/brugdid-eftir-vid-tal-vid-borgar-stjora

Grein okkar Mörtu birtist á visir.is. kl. 07:30 þriðjudaginn 26. ágúst:

https://www.visir.is/g/20252766672d/eflum-traustid

Finna má fundargerð fundar skóla- og frístundaráðs hér:

https://reykjavik.is/fundargerdir/skola-og-fristundarad-fundur-nr-296

Sé fundargerðin lesin í heild sinni má sjá að við Marta lögðum fram ýmsar tillögur og fyrirspurnir. Um eina tillögu okkar var fjallað í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. ágúst:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/27/vilja_samraemd_prof_eins_og_adur_tidkudust/

Tillöguflutningurinn um samræmd próf í grunnskólum Reykjavíkur samrýmist stefnu Sjálfstæðisflokksins:

„Auka þarf samræmt námsmat upp allan grunnskólann að nýju, sér í lagi í lok 10. bekkjar, til að tryggja yfirsýn og sjá sem fyrst hvar skóinn kreppir hverju sinni“, sjá ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins í byrjun mars 2025, https://xd.is/wp-content/uploads/2025/04/2025_Allsherjar-og-menntamalanefnd.pdf.

Pepsí Max týnist!

Veðrið sl. miðvikudag var yndislegt og seinnipartinn settist ég úti á bar sem ég held mikið upp á, Veður. Þar áttum við, Jón Gunnar Jónsson, fyrrverandi forstjóra Bankasýslu ríkisins, góða stund saman en við Jón höfum þekkst lengi í gegnum skákina.

‍Þegar ég kom heim þá fannst ekki yngri kötturinn, Pepsí Max (Ölgerðin styrkir ekki nafngiftina, en ég er tilbúinn að hlusta á tilboð!). Fyrr um daginn hafði ég hleypt honum út, ásamt þeim eldri. Ég gerði ítrekaðar tilraunir til að finna Pepsí en ekki fannst hann. Þegar nýr dagur rann upp hélt ég áfram leitinni og endaði með því að auglýsa eftir honum á mörgum fésbókarsíðum, bæði kattarsíðum og íbúasíðum. Einn íbúi í Norðurmýri hafði svo samband um kl. 09:00 og hafði þá pottormurinn sofið á bekk út í garði á Guðrúnargötu:

Nýbúinn að fá Pepsí Max aftur, árla fimmtudagsins 28. ágúst!

Ég var bæði glaður og feginn að fá Pepsí Max aftur á heimilið, hann er ansi skemmtilegur og skrautlegur köttur. Gleði mín, fyrr í vikunni, var einnig töluverð þegar Liverpool skoraði sigurmark gegn Newcastle á næstum því 100. mínútu:

Rio, hinn 16 ára, hér um bil að fara að skora sigurmarkið fyrir Liverpool!

Innviðaþing

Vegna vesensins tengt Pepsí Max mætti ég of seint á Innviðaþing sem hófst kl. 08:30 á Hótel Hilton Nordica fimmtudaginn 28. ágúst:

https://www.stjornarradid.is/raduneyti/innvidaraduneytid/radstefnur-og-fundir/innvidathing-28.-agust-2025/

‍Þrátt fyrir þau skakkaföll náði ég að hlusta á þrjú mjög áhugaverð erindi:

Mæli sérstaklega með erindi Árna Freys, aðgengilegt á Netinu.

Við slit þingsins var boðið upp á léttar veitingar og náði ég þá að spjalla drykklanga stund við vinkonu mína, Berglindi Hörpu, varaþingmann Sjálfstæðisflokksins í Norðaustur-kjördæmi. Afar öflug kona þar á ferð og vonandi verður hún alþingismaður í framtíðinni. Eins og stundum áður ræddum við um stöðu og framtíð okkar flokks, Sjálfstæðisflokksins. Betra sjá augu en auga í þeim efnum.

Skiptistöðin í Mjódd

Eitt af því sem ég gerði þriðjudaginn 26. ágúst var að skrifa grein um skiptistöðina í Mjódd sem birt var í Morgunblaðinu fimmtudaginn 28. ágúst. Greinin fékk töluverða dreifingu á samfélagsmiðlum og þó nokkur viðbrögð:

Sjá líka, https://www.dv.is/frettir/2025/8/28/helgi-ass-kjaftstopp-thetta-astand-er-nidurlaegjandi-fyrir-breidholt/

‍Þetta mál vakti nokkra athygli og föstudaginn 29. ágúst ræddi ég það í síðdegisútvarpi Rásar 2:

https://www.ruv.is/utvarp/spila/siddegisutvarpid/23825/b7qiuf

Um helgina hafa svo barnabörn okkar Ólafar Völu verið töluvert hjá okkur:

Ívar Helgi og Sóllilja Vala eru mikil krútt!

Sólin skín yfir Reykjavík á þessum lokadegi ágúst og vonandi boðar hún blítt og litríkt haust.