Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi

Í æsku var lögð fyrir okkur krakkana í Taflfélagi Reykjavíkur skákþraut sem bar heitið „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“. Nafngiftin stafaði af því að hvítur fórnaði liði og lokaleikurinn fól í sér peðsleik sem gafflaði þungavigtarmenn andstæðingsins og sá gaffall tryggði sigurinn, peðið var litla þúfan sem velti þunga hlassinu.

Mér var hugsað til þessarar þrautar um daginn þegar eftirfarandi spurning kviknaði: Verður kannski húsbíll í Norðurmýri til þess að hlassi verði velt?

Þrautaganga í Norðurmýri

Síðan 10. maí eða svo hafa íbúar reynt eins og rjúpan við staurinn að koma húsbíl af götu í hverfinu:

Færsla á íbúasíðu Norðurmýrar, dags. 14. maí 2025

Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að fá yfirvöld til að þvinga eiganda ökutækisins til að fjarlægja það af þessum óheppilega stað á horni Bollagötu og Gunnarsbrautar. Hins vegar kveikti málið áhuga minn á stöðu þessara mála almennt í borginni.

Skoðum nokkrar myndir úr ýmsum hverfum borgarinnar.

Vesturbær, 107 Reykjavík

Þetta tæki hafði verið á bílastæði Þjóðarbókhlöðunni í viku að minnsta kosti, mynd tekin 20. júní 2025
Þetta ökutæki var við Neskirkju, mynd tekin í júní 2025
Tæki rétt hjá Melaskóla

Breiðholtið, 111 Reykjavík

Við Fella- og Hólakirkju

Um mitt ár 2024 hafði ég tekið eftir þessu ástandi við Fella- og Hólakirkju þegar ég sótti fjölmenna útför. Víða í Breiðholtinu má finna dæmi um svona landnotkun en þar er þó að finna tímabundin skot fyrir stór ökutæki á borð við vinnuvélar, rútur og þess háttar.

Árbær, 110 Reykjavík

Við Krónuna í Árbæ
Við Árbæjarkirkju

Hlíðarnar

MH segir bara velkomnir eftir 29. maí en farið fyrir 18. ágúst!
Nóg pláss!

Úlfársdalur

Við Dalskóla, 27. júní 2025
20. júní 2025, Úlfarsárdalur
Úlfarsárdalur, 27. júní 2025
Víða í Úlfársdal eru tæki af þessum toga

Tillöguflutningur í borgarstjórn

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 24. júní 2025 var lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem hafði það meðal annars að markmiði að reglum yrði breytt í því skyni að „tryggja skilvirka lagaframkvæmd við fjarlægingu ökutækja og lausamuna sem hafa án heimildar verið um langa hríð í borgarlandinu“. Einnig að stefna yrði mótuð til að tryggja nægilegt framboð af stæðum fyrir stór ökutæki í hverfum borgarinnar.

Sjá tillöguna hér:

https://reykjavik.is/sites/default/files/2025-06/tillaga_d_storir_bilar.pdf

Umfjöllun fjölmiðla um tillöguna

Fjallað var um þennan tillöguflutning í Morgunblaðinu þriðjudaginn 24. júní 2025:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/24/nyta_bilastaedi_i_gotu_sem_langtimastaedi/

Mánudaginn 30. júní 2025 mætti ég í viðtal í þættinum Bítinu til að fjalla nánar um tillöguna:

Bítið á Bylgjunni mánudaginn 30. júní 2025

Hægt er að nálgast viðtalið hér:

https://www.visir.is/k/9927d50b-6b9c-487e-b20e-0de92a9d61f2-1751269434638/lagataeknilega-flokid-ad-fjarlaegja-husbila-sem-lagdir-eru-hingad-og-thangad

‍Á fundi borgarstjórnar 24. júní var tillögunni frestað en vonandi tekst að koma henni að síðar á þessu ári.

Peð geta ráðið úrslitum!

Auðvitað er það svo að þessi viðfangsefni eru ekki þau brýnustu sem við er að glíma en þegar kemur að sveitarstjórnarpólitík eru það oft svona mál sem geta vakið áhuga fólks og fengið það til að hugsa um nærumhverfi sitt. Húsbíllinn á horni Bollagötu og Gunnarsbrautar getur því reynst peð sem veltir þungu hlassi og orðið til þess að raunverulegar framfarir verði í þessum málaflokki.

Áfram verður hið minnsta barist í þessu máli!