Barátta eldri borgara í Árskógum við borgina
Það á ekki af íbúum í Árskógum í Breiðholtinu að ganga. Haustið 2024 var hafist handa við að reisa vöruhús að Álfabakka 2 sem síðan hefur fengið viðurnefnið „Græna gímaldið“:

Síðustu vikur hefur Reykjavíkurborg hafið gangstígsframkvæmdir við Árskóga og hafa þær framkvæmdir þótt umdeildar í ljósi þeirrar skerðinga sem fasteignareigendur í nágrenninu verða fyrir.
Þær íbúðir sem verða fyrir mesta raskinu vegna göngustígsframkvæmdanna eru að Árskógum 1 en bilið á milli sólstofanna og stígsins er innan við 80 cm.

Mótmæli íbúa að Árskógum
Í fyrradag, þriðjudaginn 15. júlí, tóku margir íbúar að Árskógum sig saman og mótmæltu lagningu göngustígsins og var um þau mótmæli fjallað í fjölmiðlum:
RÚV
DV
MBL
Visir
Forsvarsmaður húsfélagsins að Árskógum 1, Ingi Þór Hafsteinsson, mætti í viðtal í Bítinu á Bylgjunni miðvikudagsmorguninn 16. júlí og sagði farir íbúa ekki sléttar eftir langvarandi rimmu við Reykjavíkurborg
Heimsókn að Árskógum 1, miðvikudaginn 16. júlí
Skömmu eftir viðtalið tók ég hús á Inga og fékk nánari upplýsingar um málið. Við Ingi byrjuðum á að ganga um svæðið og sýndi hann mér meðal annars eftirfarandi stoðvegg, sem reisa á horni Árskóga 1 og gangstígsins meðfram Skógarseli:

Þessi stoðveggur er fyrirferðarmikill en honum er ætlað að tryggja að jarðvegur þoli umferð neyðarbíla meðfram gangstígnum að Árskógum. Lega veggsins er þess eðlis að horníbúðir á jarðhæð við Árskóga 1 munu fyrst og fremst sjá vegginn úr sólstofu sinni. Einn íbúi í slíkum íbúðum, Ásgeir Gunnarsson, hefur talað tæpitungulaust um málið.

Ingi benti mér einnig á að með reglulegu millibil verði götuljós meðfram stígnum og það muni valda íbúðareigendum ónæði. Jafnframt eru áhyggjur af því hvernig vatns- og lekavarnir verði tryggðar þar eð landið liggur niður á móti að Árskógum 1 og í úrhellisrigningaveðrum er hætta á að það leki auðveldlega inn í bílakjallara að Árskógum 1.
Við Ingi höfðum aldrei hist áður og var hann svo elskulegur að bjóða mér inn til sín. Þar heilsaði ég eiginkonu hans og við sátum svo saman í sólstofunni og ræddum málin nánar.

Ingi veitti mér gagnlegar upplýsingar um byggingasögu hússins og gögn sem hann hafði fengið frá Reykjavíkurborg útaf gangstígsframkvæmdinni.
Árskógar 1 og 3 eru hús sem eingöngu félagar í Félagi eldri borgara í Reykjavík geta eignast íbúðir í. Við byggingu húsanna virðist ekki hafa farið eftir hæðarkótum þeirra, það er, jarðhæð húsanna átti að vera hærra uppi. Það gerir að verkum að sólstofa á jarðhæð er neðar í jörðinni sem aftur gerir gangstígsgerðina mun hvimleiðari fyrir íbúa húsanna en reiknað var með samkvæmt skipulagi og samþykktum byggingarteikningum.
Þetta upplifa allir sem heimsækja íbúð með sólstofu eins og þeirri sem er í íbúð Inga og eiginkonu hans.

Á þetta hæðarmál var lítillega minnst í viðtali við embættismann hjá Reykjavíkurborg í Bítinu í morgun, fimmtudaginn 17. júlí:
Annars lagði embættismaður borgarinnar aðaláherslu á í viðtalinu að skipulagi hafi verið breytt með samþykki lóðarhafa. Það atriði er útaf fyrir sig rétt en hartnær útilokað var fyrir eigendur íbúðanna á jarðhæð að Árskógum 1 að átta sig á að gangstígurinn yrði svona nálægt sólstofum íbúðanna og myndi valda þeim jafn miklum búsifjum.
Mótmæli íbúa eru því eðlileg og æskilegt væri að koma til móts við hagsmuni þeirra.
Einnig verður til þess að líta að borgin fer með skipulagsyfirvaldið og hefur eftirlit með byggingaframkvæmdum, að hluta til. Árskógar 1 og 3 hafa verið á þessum stað í nokkur ár án þess að til gangstígsframkvæmdanna hafi komið.
Á þessari yfirlitsmynd frá september 2024 sést að mikið af svæðinu. var enn óskipulagt. Sem dæmi var æfingavöllur ÍR sem er steinsnar frá Árskógum 1 og 3, ekki tilbúinn þá. Það hafa því verið næg tækifæri síðan haustið 2024 til að finna lausnir sem myndu virka og þar sem tekið væri tillit til hagsmuna íbúðareigenda að Árskógum 1 og 3.
Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að þetta eru eigendur íbúða sem eru eldri borgarar eða eins og áðurnefndur Ásgeir Gunnarsson sagði í viðtali við fréttastofu Sýnar, 16. júlí:
„Þetta reynir á gamalt fólk og við erum komin til að hvíla okkur í restina á þessu lífi en það er greinilegt að það er ekki tekið tillit til þess.“
Svar borgarinnar er að framkvæmdir halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.