Anatoly Karpov, tólfti heimsmeistarinn í skák
Fyrir skömmu hnaut ég um viðtalsseríur sem aðgengilegar eru á youtube-rásinni Levitov Chess World:

Á þessari rás er mikið um viðtöl á rússnesku en youtube býður upp á sjálfkrafa þýðingu á því sem fram fer á ensku. Sem dæmi er sería á rásinni sem ber heitið „Born to win“ en í þeirri seríu eru tekin 5 viðtöl við Anatoly Karpov sem varð heimsmeistari í skák árið 1975. Í kjölfarið varð hann sigursælasti mótaskákmaður sögunnar þar til að Garry Kasparov og Magnus Carlsen komu til sögunnar.
Árið 1985 tapaði Karpov heimsmeistaraeinvígi gegn Kasparov sem varð síðan óumdeildur heimsmeistari. Hins vegar á árunum 1993-1999 varð Karpov heimsmeistari FIDE (alþjóða skáksambandið) á meðan Kasparov, sem klauf sig frá FIDE árið 1993, var besti skákmaður heims og heimsmeistari sinna eigin samtaka.
Karpov bar því heimsmeistaratignina í samtals 16 ár.
Þessi viðtöl við Karpov eru skemmtileg, hann er áheyrilegri þegar hann talar móðurmál sitt en þegar hann talar ensku:

Karpov segir margar áhugaverðar sögur í viðtölunum en á hinn bóginn er lítið farið yfir skákirnar hans, þó er farið yfir eina sem honum þykir vænt um, sigurskák hans gegn Búlgaranum Veselin Topalov á Linares ofurmótinu árið 1994:

Eitt mesta afrek Karpovs var sigur hans á téðu ofurmóti í Linares árið 1994:

Skáktölfræðingurinn Jeff Sonas telur þetta besta mótaárangur skáksögunnar en um það má sjálfsagt deila.
Ég mæli með bókum Tibor Karolyi um strategíska nálgun Karpovs á skák:


Bæði Karpov og Kasparov lærðu mikið af fyrri heimsmeisturum í skák og þá ekki síst af patríarknum, Mikhail Botvinnik:

Kasparov hefur sagt að Magnus Carlsen, sjálfsagt besti skákmaður sögunnar, hafi stíl sem sameini styrkleika Bobby Fischers og Anatoly Karpovs (e. Magnus is a lethal combination of Fischer and Karpov).

Karpov hefur gegnt pólitísku hlutverki í Rússlandi og margir hafa gagnrýnt hann fyrir stuðning við stjórn Pútíns, meðal annars yfirvöld í Úkraínu:
Ég þekki betur til skáka Karpovs en stjórnmálaafskipta hans. Fyrir upprennandi skákmenn og fyrir alla sem vilja auka skilning sinn á skák, er nauðsynlegt að læra af skákstíl Karpovs. Að sameina þá þætti að bæta stöðu sína og koma í veg fyrir fyrirætlanir andstæðingsins.
Að vita hvar mennirnir eiga að vera svo að þeir virki sem best. Að kunna að verjast í vondum stöðum og venja sig á að þegar búið er að snúa taflinu við, að slá þá ekki slöku við, heldur halda áfram baráttunni og tefla til sigurs.